Tilvist varnarsamningsins óháð NATO

Vangaveltur þess efnis að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna kynni að vera í uppnámi kæmi svo ólíklega til þess að Bandaríkjamenn segðu skilið við NATO standast ekki skoðun. Rökin í þeim efnum eru á þá leið að skírskotað sé til bandalagsins í samningnum. Ástæða þess er fyrst og fremst sú að bæði ríkin voru aðilar að NATO þegar hann var gerður.

Varnarsamningurinn var þannig gerður árið 1951 en Ísland og Bandaríkin voru stofnaðilar að NATO tveimur árum áður. Samningurinn var gerður að frumkvæði Bandaríkjamanna og fyrst og fremst vegna mikilvægrar landfræðilegrar legu landsins sem frá því í síðari heimsstyrjöldinni hafði verið talin skipta máli fyrir bandarískar landvarnir og gerir enn.

Með öðrum orðum var NATO ekki forsenda varnarsamningsins heldur byggðist hann einfaldlega á gagnkvæmum hagsmunum Íslands og Bandaríkjanna með tilliti til varnarmála. Líkt og raunin er enn í dag. Landfræðileg lega landsins myndi ekki breytast við það að Bandaríkjamenn færu úr NATO. Hagsmunir Bandaríkjanna í þeim efnum yrðu sem fyrr til staðar.

Hvað NATO varðar var bandarískum lögum breytt í desember 2023 þess efnis að forseti Bandaríkjanna gæti ekki sagt skilið við varnarbandalagið án samþykkis þingsins. Tilefnið var augljóst. Þverpólitískur stuðningur var við lagabreytinguna og var flutningamaður frumvarpsins af hálfu repúblikana Marco Rubio, núverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Hvorki Donald Trump Bandaríkjaforseti né aðrir bandarískir ráðamenn hafa þess utan sagt að varnarsamningurinn kynni að vera í hættu. Þvert á móti hafa bandarísk stjórnvöld fullyrt að hann stæði styrkum fótum. Í öllu falli er deginum ljósara að Evrópuríkin með sín vanræktu varnarmál til áratuga hafa enga burði til þess að tryggja varnir Íslands.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Bandarísk orrustuþota af gerðinni F-15 Eagle. Eigandi: Shannon Collins)