Hvernig ætli staðan sé í dag?

Mikill meirihluti landsmanna sagðist fylgjandi auknu landamæraeftirliti gagnvart öðrum ríkjum sem aðild eiga að Schengen-svæðinu samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar MMR (nú Maskínu) sem birtar voru í júlí 2011 eða 83,5%. Þar af voru 49% mjög fylgjandi því og 34,5% frekar fylgjandi. Hins vegar voru einungis 16,5% andvíg því að eftirlit yrði aukið.

Fram kom í fréttatilkynningu MMR að stuðningur við aukið landamæraeftirlit hefði verið afgerandi óháð þjóðfélagsaðstæðum og stjórnmálaskoðunum svarenda. Minnstur hefði stuðningurinn verið á meðal stuðningsmanna Samfylkingarinnar en engu að síður sögðust 71,2% þeirra styðja aukið landamæraeftirlit gagnvart öðrum aðildarríkjum Schengen-svæðisins.

Frá því að skoðanakönnunin var gerð fyrir bráðum 14 árum síðan hefur afstaða fólks til Schengen-svæðisins ekki verið könnuð. Fróðlegt væri að vita hver afstaðan væri í dag til áframhaldandi aðildar að svæðinu í ljósi þess að mikil og vaxandi umræða hefur átt sér stað um stöðu mála á landamærum landsins frá því könnunin var gerð og margt gerzt í þeim efnum.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Farþegaþotur á flugvellinum í Poznan í Póllandi. Eigandi: Koefbac)