Hættu að spyrja um spillinguna

Mikill meirihluti íbúa ríkja Evrópusambandsins taldi spillingu þrífast innan stofnana sambandsins samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem gerð var fyrir framkvæmdastjórn þess árið 2013 eða 70%. Þar af 84% aðspurðra í Svíþjóð, 82% í Þýzkalandi og 80% í Austurríki. Hliðstætt hafði komið fram árin á undan. Viðbrögð framkvæmdastjórnarinnar við þessu voru þau að hætta einfaldlega að láta spyrja um spillingu í stofnunum sambandsins.

Hins vegar var haldið áfram að spyrja um spillingu í opinberum stofnunum ríkja Evrópusambandsins í skoðanakönnunum fyrir framkvæmdastjórnina. Samkvæmt nýjustu könnuninni sem gerð hefur verið í þeim efnum og nær til 2023 töldu 70% aðspurðra að spilling væri landlæg í heimalöndum þeirra. Þar af 97% í Grikklandi, 93% í Portúgal, 89% á Spáni, 85% á Ítalíu, 69% í Frakklandi, 60% í Austurríki, 59% á Írlandi og 57% í Þýzkalandi og 47% í Hollandi.

Viðbrögð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins segja auðvitað sína sögu. Ákvörðunin var réttlætt með því að almenningur hefði ekkert vit á málinu. Litlar líkur eru þó á því að eins hefði verið staðið að málum hefðu niðurstöðurnar hentað sambandinu. Vafalítið hefði almenningur þá verið talinn vita ágætlega hvað hann væri að tala um. Vart er að furða að einungis 4% íbúa ríkja Evrópusambandsins treysti stofnunum þess bezt til þess að taka á spillingarmálum.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Eigandi: almathias)