„Þó ég sé hlynntur inngöngu í ESB“

„Við þurfum nú að beina orkunni að því að standa vörð um norska hagsmuni. Ekki að eyða henni í langt, krefjandi umsóknarferli [að Evrópusambandinu] sem hætta er á að sundri okkur,“ sagði Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs og leiðtogi Verkamannaflokksins, í ræðu sinni á landsfundi flokksins sem lýkur í dag. Verkamannaflokkurinn, systurflokkur Samfylkingarinnar, hefur sögulega séð verið hlynntur inngöngu í sambandið.

Vissulega væri innganga í Evrópusambandið valkostur en sem forsætisráðherra sagðist Støre, sem var endurkjörinn leiðtogi Verkamannaflokksins á landsfundinum, þurfa að horfa til þeirrar grundvallarspurningar hvað þjónaði hagsmunum Noregs bezt í dag og hvernig Norðmenn gætu sem þjóð staðið eins sameinaðir og mögulegt væri á þeim erfiðu tímum sem nú væru til staðar þó sjálfsagt væri að ræða með opnum hætti um tengsl landsins við sambandið.

„Hins vegar er ný þjóðaratkvæðagreiðsla um Evrópusambandið ekki það bezta fyrir Noreg. Við erfiðar aðstæður vil ég frekar halda Noregi sameinuðum en setja af stað ný átök með eða á móti [inngöngu í sambandið],“ sagði Støre enn fremur í ræðunni. Orku Norðmanna væri betur varið í það að verja hagsmuni Noregs en langt, krefjandi og sundrandi umsóknarferli sem fyrr segir. „Þetta er mitt mat þó ég sé hlynntur inngöngu í Evrópusambandið.“

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs. Eigandi: Forsetaembætti Úkraínu)