Vildu ná til heimildarmannsins

Hvers kyns spilling hefur verið svo landlæg í stjórnkerfi Evrópusambandsins í gegnum tíðina að jafnvel hafa komið upp spillingarmál innan OLAF, stofnunar sambandsins sem ætlað er að berjast gegn spillingu innan þess. OLAF beitti sér til dæmis fyrir því 2004 að belgíska lögreglan gerði húsleit hjá þýzka blaðamanninum Hans-Martin Tillack, sem hafði skrifað um fjármálaóreiðu innan stofnunarinnar, til þess að ná til heimildarmanns hans.

Tillack var handtekinn í húsleitinni, hald lagt á tölvur hans, gögn og síma og hann vistaður í fangaklefa. Málið endaði að lokum hjá Mannréttindadómstól Evrópu fjórum árum síðar sem dæmdi Tillack skaðabætur. Hafnaði dómstóllinn þeirri fullyrðingu OLAF að stofnunin hefði veitt belgísku lögreglunni áreiðanleg gögn sem leitt hefðu getað til sakamálarannsóknar á hendur honum. Einungis hefði verið um að ræða óljósan og alls órökstuddan orðróm.

Komið hafa upp fjölmörg önnur spillingarmál innan stofnana Evrópusambandsins á liðnum árum. Ekki sízt innan þings sambandsins og framkvæmdastjórnar þess. Iðulega hefur þá verið reynt að sópa málunum undir mottuna sem flest hafa snúizt um misferli með fjármuni skattgreiðenda á einhvern hátt. Fyrir vikið kemur líklega ekki á óvart að einungis 4% íbúa ríkja sambandsins skuli treysta stofnunum þess bezt til að taka á spillingarmálum.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Fáni Evrópusambandsins. Eigandi: Hjörtur J. Guðrmundsson)