Hverjir ógnuðu öryggi þeirra?

Tekin var ákvörðun um það af hálfu embættis ríkislögreglustjóra að engir áhorfendur yrðu á leik kvennalandsliða Íslands og Ísraels í handbolta sem fram fór síðastliðinn fimmtudag. Hópur fólks mótmælti fyrir utan Ásvelli í Hafnarfirði þar sem leikurinn fór fram og var meðal annars barið harkalega á hurðir íþróttahússins. Var gripið til þess ráðs að spila tónlist í húsinu til þess að reyna að yfirgnæfa barsmíðarnar. Mótmælin voru skipulögð af félaginu Ísland-Palestína.

„Það eru ekki eðilegar eða ásættanlegar aðstæður þegar landslið þarf að spila tvo leiki fyrir luktum dyrum, mæta í lögreglufylgd og hafa áhyggjur af öryggi sínu bæði á vellinum og utan hans,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu sem kvennalandslið Íslands í handbolta sendi frá sér í kjölfar leiksins þar sem leikmennirnir mótmæltu því að Ísrael fengi að taka þátt í alþjóðlegum mótum. En hverjir ógnuðu öryggi þeirra? Jú, fólk sem einnig er andvígt þátttöku Ísraels.

Vitanlega er mjög sérstakt, hvað sem líður afstöðu fólks til átakanna fyrir botni Miðjarðarhafsins, að stilla málum þannig upp að landslið Ísraels beri ábyrgð á því að einstaklingar, sem andvígir eru þátttöku þess á alþjóðlegum mótum, hafi kosið að ganga fram með þeim hætti að íslenzku leikmennirnir hafi óttast um öryggi sitt, bæði innan vallar og utan, og þurft vernd lögreglu af þeim sökum. Þeir einu sem bera ábyrgð á því eru vitaskuld þeir sem koma þannig fram.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Frá mótmælum í Berlín, höfuðborg Þýzkalands. Eigandi: Leonhard Lenz)