Kosningaloforð einungis „viljayfirlýsingar“

„Hin svokölluðu kosningaloforð eru viljayfirlýsingar þeirra sem leggja þau fram,“ sagði Inga Sæland, félagsmálaráðherra og formaður Flokks fólksins, í pistli í Morgunblaðinu 30. desember. Fáir aðrir stjórnmálaflokkar hafa gagnrýnt aðra flokka jafn mikið fyrir það að hafa ekki staðið við kosningaloforð á undanförnum árum. Fáir flokkar hafa að sama skapi snúið jafn hressilega baki við ófrávíkjanlegum kosningaloforðum og Flokkur fólksins á undanförnum dögum.

Spurð í Forystusætinu í Ríkisútvarpinu 7. nóvember hvert af kosningaloforðum Flokks fólksins væri slíkt grundvallarmál að hún myndi hvergi hvika frá því í stjórnarmyndunarviðræðum nefndi Inga lágmarksframfærslu upp á 450 þúsund krónur á mánuði skattlaust enda hefði flokkurinn beinlínis verið stofnaður um það stefnumál. „Ég á ekkert erindi í einhvern ráðherrastól ef ég get ekki staðið við það að minnsta kosti.“ Hún fór þó í ríkisstjórn þrátt fyrir að ná því ekki fram.

Flokkur fólksins lýsti því einnig yfir fyrir kosningarnar, spurður af Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum, hvort hann myndi styðja það á „næsta kjörtímabili að tekin yrðu skref í áttina að inngöngu í Evrópusambandið, til dæmis með þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort sótt verði á ný um aðild að sambandinu“, að hann myndi ekki gera það. Svar flokksins var eitt orð: „Nei.“ Flokkurinn samþykkti þó í stjórnarmyndunarviðræðunum að einmitt það yrði gert.


Margítrekað lýsti Inga yfir andstöðu við bókun 35 við EES-samninginn sem felur í sér að regluverk frá Evrópusambandinu í gegnum samninginn gangi framar löggjöf sem á sér innlendan uppruna. Hið sama á til dæmis við um Eyjólf Ármannsson, þingmann Flokks fólksins og nýjan samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. „Við munum berjast gegn þessari bókun 35 eins og kostur er,“ sagði Inga á Útvarpi Sögu 14. febrúar. Bókunin færi í bága við stjórnarskrá lýðveldisins.

„Ég virði stjórnarskrána okkar þó að það sé margoft gengið um hana af hinni mestu léttúð hér á hinu háa Alþingi. Ég skal alveg viðurkenna það. Ef við ætlum að gera þetta og það á að vera einhver bragur á því þá skulum við a.m.k. tryggja það að við séum ekki að ganga á okkar grundvallarlög eins og við munum gera með því að innleiða bókun 35 án þess að taka tillit til þess sem stjórnarskráin okkar kveður á um,“ sagði Inga í umræðum um málið á Alþingi daginn fyrir viðtalið.

Hins vegar var allt annað uppi á teningnum þegar Inga mætti á Útvarp Sögu 28. desember þar sem hún var allt í einu komin á þá skoðun að rétt væri að innleiða bókun 35. Tíundaði hún þar atriði sem stuðningsmenn málsins hafa haldið á lofti og hún áður ítrekað hafnað. Þá kaus hún að þessu sinni að skauta algerlega fram hjá stjórnarskránni. Ekkert nýtt var í málflutningi hennar sem ekki hafði áður komið fram. Það eina sem breyttist í millitíðinni er að Inga er nú orðin ráðherra.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Þingsalurinn í Alþingishúsinu. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)