Mjög óheppilegt að lenda á milli

„Tilvísun ráðherra var til EFTA-ríkjanna innan EES, þ.e. Íslands, Liechtenstein og Noregs en þau eru hluti af innri markaðinum á grundvelli EES-samningsins,“ segir í svari frá utanríkisráðuneytinu vegna fyrirspurnar um það til hvaða ríkja Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar, var að skírskota á dögunum þegar hún lét þau orð falla í fjölmiðlum að mikilvægt væri að Ísland stæði með EES-ríkjunum vegna yfirvofandi tollastríðs í heiminum.

Var í fyrirspurninni vísað til þess að auk Íslands, Noregs og Liechtensteins eru öll ríki Evrópusambandsins einnig aðilar að EES-samningnum. „Samhengið var að það væri mjög óheppilegt ef það kæmi til tollastríðs milli okkar nánustu samstarfsþjóða og EFTA-ríkin innan EES myndu á einhvern hátt lenda þar á milli. Stjórnvöld hafa unnið að því að svo verði ekki,“ sagði enn fremur en væri Ísland innan sambandsins yrði landið beinlínis aðili að tollastríði þess og Bandaríkjanna.

Vegna stöðu Íslands utan Evrópusambandsins hafa hérlend stjórnvöld sjálfstæða rödd á alþjóðavettvangi til þess að halda á málum í samræmi við hagsmuni lands og þjóðar og geta fyrir vikið beitt sér fyrir því að við Íslendingar lendum ekki á milli í tollastríði þess og Bandaríkjanna. Hér er á ferðinni ágæt birtingarmynd þess hversu mikilvægt það er að halda í fullveldið, valdið til þess að ráða okkar eigin málum, í stað þess að framselja það til stofnana sambandsins.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

(Ljósmynd: Utanríkisráðuneytið. Eigandi: Hjörtur J. Guðmundsson)